Hagnýtt
Senda nafnlausa ábendingu
2. Viðbrögð ef barn týnist af leikskóla
A. Stig:
Um leið og grunur er um að barn sé týnt gerir kennari öðru starfsfólki viðvart og eins margir og unnt er fara í að leita (gæta þarf þess að það fari ekki allir eða of margir að leita), einn starfsmaður lætur aðrar deildir vita sem senda einnig starfsmenn að leita sé það hægt, leikskólastjóra er gert viðvart sem metur hvenær tímabært sé að óska eftir utanaðkomandi aðstoð. Ef barn finnst er starfsfólk látið vita og foreldrar látnir vita í lok dags að atvikið hafi átt sér stað.
B. Stig:
Finnist barn ekki eftir stutta vettvangsathugun, hringir leikskólastjóri (eða sá sem er hæðstráðandi hverju sinni) í lögregluna og óska eftir frekari aðstoð. Strax í kjölfarið er hringt í foreldra barnsins og þeir látnir vita af málinu og leit heldur áfram. Þegar barnið finnst er starfsfólk látið vita og foreldrar annarra barna látin vita af málinu um leið unnt er og málavextir hafa skýrst. Eftirfylgni: Farið er yfir verkferla leikskólans.
c. Stig:
Þegar lögreglan tekur þátt í leit, taka verkferlar og vinnulag lögreglu við. Eftirfylgni: Leikskólastjóri boðar foreldra barnsins á fund fljótlega eftir atvikið til þess að fara yfir málavexti og næstu skref. Aðrar foreldrar eru upplýstir um málið um leið og búið er að fara vel yfir málavexti, ræða við foreldra barnsins. Öðrum doreldrum sem og skólayfirvöldum (skólanefnd) eru upplýst um málið. Farið er yfir öryggisatriði og verkferla leikskólans og skýrslu skilað til skólanefndar og foreldra um umbótaaðgerðir. Skólinn, foreldrar og/eða skólanefnd getur óskað eftir að utanaðkomandi aðili annist mat á öryggismálum.
3.Viðbrögð við matarsýkingum
Ný áætlun í janúar 2025
Matarbornir sjúkdómar eru matareitranir og matarsýkingar af völdum örvera, veira eða eiturefna.
Í sameiginlegu leiðbeiningum sóttvarnalæknis (SVL), Matvælastofnunar (MAST) og heilbrigðiseftirlits sveitarfélaga (HES) er lýst verklagi við rannsóknir og aðgerðir vegna matarborinna sýkinga og matareitrana.
Mikilvægt er að heilbrigðisstarfsfólk og almenningur geri viðvart sem fyrst ef grunur vaknar um matarborna (hóp)sýkingu. Nauðsynlegt er að heilbrigðisstarfsfólk hafi matartengda sjúkdóma í huga og geri viðvart þegar einstaklingar greina frá veikindum sem líklega eru tengd neyslu matvæla.
Nokkrar leiðir eru mögulegar til þess að koma á framfæri tilkynningu eða ábendingu, sjá upplýsingar á heimasíðum viðkomandi stofnana:
Hafa beint samband við viðkomandi Heilbrigðiseftirlit (HES) í gegnum síma eða tölvupóst
Senda rafræna ábendingu til Matvælastofnunar
Senda rafræna ábendingu til Sóttvarnalæknis
https://www.mast.is/is/neytendur/matareitrun/vidbrogd-vid-matarsjukdomum
4.Viðbrögð EKKO á vinnustað
Viðbragð vegna eineltis, kynferðislegri- eða kynbundinni áreitni og ofbeldis á vinnustað
Mál sem varða við almenn hegningarlög skal tilkynna til lögreglu.
Fara skal eftir eftirfarandi viðbragðsáætlun í öllum þeim tilvikum þar sem grunur er um að einelti, kynferðisleg eða kynbundið áreitni og/eða ofbeldi eða önnur ótilhlýðilega hegðun eigi sér stað eða hafi átt sér stað á vinnustaðnum.
Stefna og viðbragðsáætlun þessi skal kynnt starfsmönnum á starfsmannafundi í upphafi hvers skólaárs og undirrita fundarmenn fundargerð þess efnis. Nýjum starfsmönnum skal kynnt þessi stefna og viðbragðsáætlun við upphaf starfs. Stefnan og viðbragsáætlunin er endurskoðuð árlega og eru breytingar og uppfæslur kynntar á sama starfsmannafundi að hausti hvers skólaárs. Áætlunin er aðgengileg starfsfólki á sama stað og aðrar viðbragðs- og öryggisáætlanir.
Virkjun áætlunar
Verði stjórnendur varir við hegðun eða ágreining í samskiptum starfsmanna sem vekur grunsemdir um að eitthvað af eftirfarandi eigi við:
Vakni grunum um að það eigi sér til staðar á vinnustaðnum einelti, kynferðisleg áreitni, kynbundin áreitni, ofbeldi eða önnur ótilhlýðileg hegðun.
Berist stjórnendum kvörtun frá starfsmanni um einelti, kynferðislega áreitni, kynbundna áreitni, ofbeldi eða aðra ótilhlýðilega hegðun á vinnustað, eða berist ábending um að starfsmaður hafi orðið fyrir einelti, kynferðislegri áreitni, kynbundinni áreitni, ofbeldi eða annarri ótilhlýðilegri hegðun á vinnustaðnum.
Við mat á því hvort viðbragðsáætlun sé virkjuð skiptir ekki máli hvort annar en starfsmaður sé gerandi, t.d. foreldrar. Einnig skiptir það ekki máli hvort atvikið sem um ræðir á sér stað utan vinnustaðar svo lengi sem starfsmenn eiga hlut að máli.
Fyrstu viðbrögð
Leikskólastjóri ber ábyrgð á rannsókn mála og skal hann þegar í stað virkja viðbragðsáætlun þessa. Taka skal allar tilkynningar alvarlega og sýna nærgætni í aðgerðum gagnvart aðilum máls. Skal leikskólastjóri án ástæðulauss dráttar meta þörf þolanda fyrir bráðan stuðning og veita hann. Leggja skal ríka áherslu á að brugðist sé við hið fyrsta í þeim tilgangi að koma í veg fyrir að hegðunin endurtaki sig og koma þannig í veg fyrir frekari skaða.
Viðbrögð leikskólastjóra og deildarstjóra
Verði deildarstjóri eða leikskólastjóri var við einelti, kynferðislega áreitni, kynbundið áreitni, ofbeldi eða aðra ótilhlýðilega hegðun eða hefur rökstuddan grun um að framangreind hegðun eigi sér stað innan stofnunarinnar ber honum að bregðast við án ástæðulausrar tafar í því skyni að koma í veg fyrir að slík hegðun endurtaki sig. Skal deildarstjóri, upplýsa leikskólastjóra sem virkjar viðbragðsáætlun þessa. Sé leikskólastjóri aðili í málinu skal málið tekið upp við sveitarstjóra.
Viðbrögð starfsmanna
Verði starfsmenn varir við einelti, kynferðislega áreitni, kynbundið áreitni, ofbeldi eða aðra ótilhlýðilega hegðun eða hafa rökstuddan grun um að framangreind hegðun eigi sér stað innan stofnunarinnar ber þeim að bregðast við með því að koma á framfæri kvörtun eða ábendingu til leikskólastjóra, deildarstjóra eða öryggistrúnaðarmanns. Starfsmaður skal jafnframt vera reiðubúinn að skýra mál sitt nánar.
Fái þeir aðilar sem tilgreindir eru hér að framan kvörtun eða ábendingu um einelti, kynferðislega áreitni, kynbundna áreitni, ofbeldi eða aðra ótilhlýðilega hegðun skulu þeir þegar hafa samband við leikskólastjóra. Sé leikskólastjóri aðili í málinu skal málið tekið upp við sveitarstjóra.
Málsmeðferð
Leikskólastjóri skal sjá til þess að gerð verði athugun á málsatvikum í þeim tilgangi að meta hvers eðlis umrædd kvörtun eða ábending er ásamt því að meta hvort ástæða sé til að leita til utanaðkomandi aðila, þar á meðal viðurkenndra þjónustuaðila, til aðstoðar svo leiða megi mál til lykta og tryggja hlutlausa málsmeðferð. Einnig skal virða óskir málsaðila um aðkomu utanaðkomandi aðila að málinu. Við úrvinnslu máls skal leikskólastjóri ráðfæra sig við sveitarstjóra.
Við meðferð máls skal sýna varfærni og nærgætni í aðgerðum með virðingu og einkahagi hlutaðeigandi starfsmanna í huga, meðal annars með því að veita ekki óviðkomandi aðilum upplýsingar um mál og tryggja að utanaðkomandi aðilar sem kunna að koma að meðferð máls geri slíkt hið sama.
Áður en málsmeðferð hefst skal leikskólastjóri upplýsa aðila máls að mál þeirra muni verða tekið til meðferðar.
Upplýsinga aflað:
Leikskólastjóri skal tryggja að við matið sé hlutaðeigandi starfsmönnum gefinn kostur á að koma sjónarmiðum sínum á framfæri og að jafnan sé rætt við einn aðila máls í senn.
Athugun á málsatvikum skal fela í sér viðtal við ætlaðan þolanda, ætlaðan geranda, vitni eða aðra þá sem veitt geta upplýsingar sem skýra málsatvik. Skrásetja skal allar frásagnir aðila og bera þær undir viðkomandi til samþykktar. Leitað verður upplýsinga um tímasetningar og önnur gögn, s.s. tölvubréf, smáskilaboð í síma eða tölvu eða annað sem varpað getur ljósi á málavöxt.
Leikskólastjóri skal sjá til þess að allt sem tengist meðferð máls sé skráð niður og halda hlutaðeigandi starfsmönnum sem og sveitarstjóra upplýstum meðan á meðferðinni stendur.
Ráðstafanir vegna samskipta meðan á rannsókn stendur:
Meðan athugun fer fram skal leikskólastjóri grípa til ráðstafana sem tryggja að ætlaður þolandi og ætlaður gerandi þurfi ekki að hafa samskipti er varðar starfsemi vinnustaðarins, svo sem með breyttum verkferlum. Varði málsatvik aðila sem ekki er starfsmaður stofnunarinnar mun leikskólastjóri sjá til þess í samráði við hlutaðeigandi deildarstjóra og þolanda að starfsmaður þurfi ekki að vera í samskiptum við aðilann.
Allar upplýsingar meðhöndlaðar sem trúnaðarmál:
Allar upplýsingar sem fást um málið verða meðhöndlaðar sem trúnaðarmál og verða öll gögn varðveitt á öruggum stað á ábyrgð leikskólastjóra og meðhöndluð samkvæmt persónuverndarlögum.
Leikskólastjóri skal tryggja að óviðkomandi aðilum verði ekki veittar upplýsingar um málið og tryggja að utanaðkomandi aðilar sem kunna að koma að meðferð máls geri slíkt hið sama.
Aðgerðir í kjölfar niðurstöðu:
Þegar mál telst nægjanlega upplýst skal leikskólastjóri taka ákvörðun, eftir atvikum í samráði við aðra stjórnendur og sveitarstjóra, til hvaða aðgerða verði gripið í samræmi við alvarleika máls hverju sinni.
Þegar atvik eða hegðun telst vera einelti, kynferðisleg áreitni, kynbundin áreitni, ofbeldi eða önnur tilhlýðileg hegðun verður brugðist við eftir eðli máls með því að veita geranda tiltal, áminningu, tilfærslu í starfi eða honum sagt upp störfum.
Þolanda og geranda verður veitt viðhlítandi aðstoð. Haldi þolandi og gerandi áfram störfum hjá stofnuninni er lögð áhersla á að breytingar verði gerðar á vinnustaðnum eins og kostur er, svo sem breytingar á vinnuskipulagi, verkferlum, staðsetningu innan starfsstöðva o.s.frv.
Tilkynna skal hlutaðeigandi starfsmönnum sem og sveitarstjóra skriflega um málalyktir. Áður en málinu er lokið skal bera skýrsluna undir ætlaðan þolanda og ætlaðan geranda.
Upplýsingar til annarra starfsmanna:
Leikskólastjóri skal meta hvort nauðsynlegt sé að upplýsa aðra starfsmenn um lyktir mála eða farveg þeirra, með það að markmiði að tryggja heilsusamlegt vinnuumhverfi. Gæta skal að því að persónuupplýsingar eða aðrar upplýsingar séu ekki veittar óviðkomandi aðilum.
Eftirfylgni mála:
Leikskólastjóri skal fela deildarstjórum að fylgja málinu eftir í þeim tilgangi að tryggja að umrædd háttsemi endurtaki sig ekki. Láti gerandi ekki af háttsemi sinni sem leiddi til málsmeðferðar, þrátt fyrir leiðsögn eða áminningu, getur það leitt til tafarlausrar brottvikningar úr starfi.
Forvarnaraðgerðir:
Áhættumat sálfélagslegra þátta skal ávallt endurskoðað í kjölfar þess að viðbragðsáætlun er virkjuð án tillits til hver niðurstaða könnunarinnar var og úrbætur gerðar á grundvelli þess. Áhættumat skal endurskoðað að lágmarki einu sinni á ári og úrbætur framkvæmdar á grundvelli þess. Til forvarnaraðgerða telst einnig fræðsla ásamt mögulegum breytingum á vinnuaðstöðu, verkferlum og öðru vinnuskipulagi. Enn fremur skal leikskólinn óska eftir mati viðurkennds þjónustuaðila á árangri slíkra aðgerða þegar ástæða þykir til eða starfsmenn óski sérstaklega eftir því.
Samskiptavandi á vinnustað
Ef upp koma ágreiningsmál, samskiptaerfiðleikar eða hagsmunaárekstrar er mikilvægt að leikskólastjóri bregðist við með viðeigandi hætti án tafar áður en þau þróast til verri vegar.
Skilgreiningar
Einelti er síendurtekin hegðun sem almennt er til þess fallin að valda vanlíðan hjá þeim sem fyrir henni verður, svo sem að gera lítið úr, móðga, særa eða ógna viðkomandi eða að valda honum ótta. Skoðanaágreiningur eða ágreiningur vegna ólíkra hagsmuna fellur ekki hér undir.
Kynferðisleg áreitni
Kynferðisleg áreitni er hvers kyns kynferðisleg hegðun sem er í óþökk þess sem fyrir henni verður og hefur þann tilgang eða þau áhrif að misbjóða virðingu viðkomandi, einkum þegar hegðunin leiðir til ógnandi, fjandsamlegra, niðurlægjandi, auðmýkjandi eða móðgandi aðstæðna. Hegðunin getur verið orðbundin, táknræn og/eða líkamleg.
Kynbundin áreitni
Kynbundin áreitni er hegðun sem tengist kyni þess sem fyrir henni verður, er í óþökk viðkomandi og hefur þann tilgang eða þau áhrif að misbjóða virðingu viðkomandi og skapa aðstæður sem eru ógnandi, fjandsamlegar, niðurlægjandi, auðmýkjandi eða móðgandi fyrir viðkomandi.
Ofbeldi
Ofbeldi er hvers kyns hegðun sem leiðir til, eða gæti leitt til, líkamlegs eða sálræns skaða eða þjáninga þess sem fyrir henni verður, einnig hótun um slíkt, þvingun eða handahófskennda sviptingu frelsis.
5.Viðbrögð EKKO gagnvart barni
Viðbragðsáætlun vegna eineltis, kynferðislegri áreitni, kynbundinni áreitni og ofbeldis gagnvart barni.
Virkjun áætlunar
Allt starfsfólk skólans skal vera vakandi fyrir líðan og velferð nemenda. Fái starfsmaður vitneskju um óæskilega hegðun barns í garð annars barns eða fullorðins í garð barns skal stafsmaður tilkynna málið málið tafarlaust við deildarstjóra eða leikskólastjóra sem setur eftirfarandi ferli af stað:
Deildarstjóri upplýsir leikskólastjóra um málið og athugar hvort einhver einkenni eineltis hafi komið fram. Deildarstjóri ræðir við foreldra um gruninn og líðan nemandans. Grunurinn og upplýsingar deildarstjóra eru ræddar á deildarfundi svo allir verði vakandi fyrir líðan og aðstæðum nemandans. Hópstjórar/deildarstjóri fylgjast síðan, í ákveðinn tíma, náið með þeim nemendum sem taldir eru eiga í hlut. Leikskólastjóri og annað starfsfólk er upplýst um gang mála eins fljótt og mögulegt er.
Deildarstjóri og leikskólastjóri hafa samráð um hvaða leið sé best að fara í að vinna með deildina alla, hópinn sem heild og þolendur og gerendur. Þegar vinnuferlið hefur verið í gangi í ákveðinn tíma fer fram endurmat á aðstæðum og á deildarfundi eru síðan ákveðin næstu skref.
Í viðtölum við foreldra er farið yfir stöðuna, hvað leikskólinn sé að gera og hvernig foreldrar geti unnið með börnum sínum heima fyrir.
Réttindi barna
Börn eiga rétt á vernd gegn hvers kyns líkamlegu, andlegu og kynferðislegu ofbeldi,
misnotkun, skeytingarleysi og vanrækslu, innan eða utan heimilis. Stjórnvöld skulu veita börnum sem sætt hafa illri meðferð og fjölskyldum þeirra viðeigandi stuðning. Börn eiga rétt á að líða vel í leikskólanum og njóta verndar gegn ofbeldi eins og fram kemur í eftirfarandi áætlun.
Ábyrgð og skyldur
Starfsmenn bera ábyrgð á að fylgjast með hegðun, uppeldi og aðbúnaði barna og er skylt að
bregðast við ef grunur vaknar um vanrækslu eða ofbeldi að einhverju tagi. Ábyrgð þessi er
meðal annars tilgreind í barnaverndarlögum, Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna.
Tilkynningaskylda samkvæmt 17. grein barnaverndarlaga gengur framar ákvæðum laga eða siðareglna um þagnarskyldu viðkomandi starfstétta.
Leikskólastjóri ber ábyrgð á að áætlun um varnir og viðbrögð gegn vanrækslu/ofbeldi sé kynnt öllu starfsfólki árlega og öllum foreldrum við upphaf leikskólagöngu barns.
Viðbrögð skólans við ofbeldi
Ef um er að ræða grun um ofbeldi, kynferðislegt eða líkamlegt, er mikilvægt að ræða
ekki við barnið um það heldur hafa strax samband við barnavernd (leikskólastjóri hefur samband við barnavernd, ef starfsmaður getur ekki farið með málið til leikskólastjóra ber honum skylda til að fara með málið sjálfur). Hægt er að fá samband við barnavernd í gegnum neyðarlínuna 1 1 2.
Það er síðan hlutverk barnaverndarstarfsmanna að kanna málið og ræða við barnið eftir þeim reglum sem um það gilda.
Viðbrögð starfsmanna
Starfsmönnum er skylt að bregðast við ef grunur vaknar um ofbeldi af einhverju tagi. Mikilvægt er að vera vakandi yfir einkennum.Ef starfsmaður verður var við einkenni sem gætu bent til ofbeldis skal hann tilkynna það strax til deildarstjóra og/eða leikskólastjóra, sé málið tilkynnt deildarstjóra skal hann tafarlaust gera leikskólastjóra viðvart um tilkynninguna. Leikskólastjóri fylgir málinu eftir.
Leikskólastjóri ber ábyrgð á skráningum um einkenni/tilvik og að leita skýringa hjá foreldrum/umönnunaraðilum þegar það á við. Leikskólastjóri ber ábyrgð á að tilkynna mál til barnaverndar samkvæmt tilkynningaskyldu barnaverndarlaga.
Öllum er skylt að tilkynna til barnaverndarnefndar ef þeir hafa ástæðu
til að ætla að barn:
búi við óviðunandi uppeldisaðstæður,
verði fyrir ofbeldi eða annarri vanvirðandi háttsemi eða
stofni heilsu sinni og þroska í alvarlega hættu
Hverjum þeim sem stöðu sinnar og starfa vegna hefur afskipti af málum barna eða þungaðra kvenna og verður var við aðstæður eins og lýst er í 16. gr. er skylt að tilkynna það barnaverndarnefnd (Barnaverndarlög nr. 80, 2002,17. gr.)
Verkferill vegna gruns um ofbeldi gegn barni af hálfu starfsmanni
Í almennum hegningarlögum nr. 19/1940 er að finna ákvæði varðandi líkamsárásabrot og önnur ofbeldisbrot. Þessi ákvæði taka jafnt til allra fórnarlamba ofbeldisbrota, hvort sem fórnarlamb ofbeldisins er barn eða fullorðinn einstaklingur. Allir eiga þennan almenna rétt til að njóta verndar gegn ofbeldi.
Í barnaverndarlögum nr. 80/2002 er síðan að finna ákvæði, sem veita börnum enn meiri vernd þegar ofbeldið er framið af einhverjum, sem hefur barn í umsjá sinni. Þetta er 98. gr. og er ákvæðið svohljóðandi:
„Ef þeir sem hafa barn í sinni umsjá misþyrma því andlega eða líkamlega, misbjóða því kynferðislega eða á annan hátt, vanrækja það andlega eða líkamlega þannig að lífi eða heilsu þess er hætta búin þá varðar það fangelsi allt að fimm árum nema þyngri refsing liggi við samkvæmt öðrum lögum.“
Börn og foreldrar fyrir hönd barna, eiga fullan rétt á því, eins og allir aðrir, að kæra til lögreglu ef þau eru beitt ofbeldi. Það skiptir ekki máli hver það er sem beitir ofbeldinu, hvort það er kennari, starfsmaður skóla, foreldri eða hver sem er annar. Barn á aldrei að þurfa að líða það að vera beitt ofbeldi.
Ef kennari eða starfsmaður skóla beitir barn ofbeldi, getur barn eða foreldrar þess leitað til ýmissa aðila eftir stuðningi og til að láta vita um ofbeldið. Það getur leitað til allra fullorðina aðila innan skólans, sveitarstjóra, eða með því að leita beint til barnaverndar eða lögreglu í gegnum neyðarnúmerið 1 1 2.
Verklag skólans ef tilkynnt eða grunur vaknar um brot gegn barni af hálfu starfsmanns.
1.Leikskólastjóri fær tilkynningu um mögulegt brot gegn barni af hálfu starfsmanns.
2.Leikskólastjóri tekur starfsmann tafarlaust úr aðstæðum og sendir starfsmanninn strax samdægurs í leyfi.
3.Leikskólastjóri tilkynnir málið til lögreglu.
4.Leikskólastjóri upplýsir foreldra um málið eftir fyrirmælum og verklagi lögreglu.
5.Leikskólastjóri gæti þurft að grípa til lokunar á skóla í einn dag, til að fá svigrúm til vinna með málið.
6.Leikskólastjóri kallar saman viðbragsðteymi skólans og unnið er út frá leiðbeiningum frá lögreglu við upplýsingagjöf til annarra aðila, svo sem starfsfólks og annarra foreldra.
7.Farið er tafarlaust yfir alla öryggisþætti sem snúa að hugsanlegum öryggisbresti.
8.Leikskólastjóri óskar eftir áfallahjálp fyrir starfsfólk og foreldra.
Ofbeldi gegn börnum vekur upp mjög sterkar tilfinningar. Því þarf starfsfólk, foreldrar og aðrir sem telja sig þurfa að eiga kost á að ræða þær tilfinningar við fagaðila í kjölfar máls.
Forvarnnarstarf
Allir starfsmenn leikskólans þurfa ljúka námskeiði á vegum BOFS (Barna- og fjölskyldustofu) um kynferðisofbeldi og kynferðislega hegðun barna og unglinga fyrir aldurinn 2.-6. ára).
Allir starfsmenn leikskólans skulu sýna nemendum hlýju, umhyggju og umbyrðarlyndi og gera þeim ljóst að ætlast sé til hins sama af þeim gagnvart öðrum nemendum og starfsfólki. Starfsmenn eiga að vera jákvæðar fyrirmyndir, vanda orð sín og athafnir og bera virðingu fyrir sérkennum og tilfinningum annarra.
Einelti þrífst illa þar sem tekist hefur að koma á jákvæðu og uppbyggjandi andrúmslofti sem einkennist af samvinnu og samkennd meðal nemenda og annarra aðila innan leikskólans. Í slíku umhverfi eiga allir auðveldara með að taka afstöðu gegn einelti.
Lífsleikni er samofið í allt starf leikskólans. Í samverustundum og daglegu starfi leikskólans fræðast nemendur um lífsgildi og hinar ýmsu dyggðir eins og vinsemd, þolinmæði og umburðarlyndi. Í Leikholti er unnið með ART þar sem unnið er með félagsfærni, reiðistjórnun og siðferði. Einnig er unnið með vináttuverkefnið Blær sem er forvarnarverkefni gegn einelti. Ef nemandi á í erfiðleikum með boðskipti eða ef félagsleg færni hans er lítil, þarf leikskólakennari að aðstoða hann við að skilja boðskiptin og komast inn í hópinn. Stór hluti af félagslegu námi barna fer fram í gegnum leik.
Markmið áætlunarinnar
Að starfsmenn séu meðvitaðir um hvað vanræksla og ofbeldi er, þekki birtingamyndir/einkenni þess og geti brugðist rétt við samkvæmt því ferli sem tilgreint er í þessari áætlun.
Að foreldrar séu meðvitaðir um tilgang áætlunarinnar og ábyrgð starfsmanna á að fylgja henni eftir.
Skilgreiningar
Ofbeldi gegn börnum getur verið kynferðislegt, líkamlegt og andlegt. Vanræksla telst einnig
til ofbeldis, það að börn búi við óviðunandi aðstæður þannig að heilsu þeirra og þroska sé
stefnt í hættu.
Kynferðislegt ofbeldi er kynferðisleg athöfn gagnvart barni. Kynferðislegt ofbeldi getur falist í beinni snertingu s.s. kossum, káfi, samræði og í óbeinni snertingu s.s. kynferðislegu tali og myndatöku, klámefni sýnt barni, sjálfsfróun í viðurvist barns.
Líkamlegt ofbeldi er ofbeldi sem er beint að barni og leiðir til að það skaðist eða að líkur séu
á því. Líkamlegt ofbeldi getur falist í að barn er slegið, kýlt, hrist til, brennt eða bundið, gefin hættuleg lyf eða eiturefni.
Andlegt ofbeldi er ofbeldi sem oft er erfitt að greina. Í því felst að foreldrar eða
ummönnunaraðilar sýna barninu viðvarandi neikvætt viðhorf og neikvæðar tilfinningar
sem eyðileggja eða hindra þróun jákvæðrar sjálfsmyndar barns. Viðhorf eða hegðun sem
segir að barnið sé einskins vert, engum þyki vænt um það eða engin vilji sjá það. Í því
getur falist niðrandi tal, óvægin gagnrýni, afneitun og höfnun.
Vanræksla getur verið bæði andleg og líkamleg. Hún felur í sér að barn fái ekki þá umönnun
og aðbúnað sem er því nauðsynleg. Grunnþörfum og sérþörfum barns ekki sinnt og
umönnun viðvarandi ábótavant. Mikilvægt er að rugla ekki vanrækslu saman við fátækt.
Birtingamyndir/einkenni ofbeldis:
Kynferðislegt ofbeldi:
-
kynferðisleg hegðun, mikill áhugi á kynfærum og snertingu þeirra
-
pissar undir, svefnerfiðleikar, martraðir
-
lélegt sjálfstraust/sjálfsmynd, kvíði, þunglyndi
-
reiði, sektarkennd
-
hegðunarvandi sem umhverfinu getur yfirsést svo sem að draga sig í hlé,
-
áhugaleysi/sinnuleysi eða of upptekin af því að standa sig vel
-
áverkar á kynfærum
Líkamlegt ofbeldi:
-
líkamlegir áverkar sem barn og/eða foreldrar/umönnunaraðilar reyna að fela eða
-
eiga erfitt með að útskýra á trúverðugan hátt
-
hræðsluviðbrögð
-
lélegt sjálfstraust/sjálfsmynd
-
beita önnur börn ofbeldi
-
streita, kvíði
-
Andlegt ofbeldi:
-
léleg sjálfsmynd/sjálfstraust
-
viljalaus, hlédræg, óörugg
-
röskun í tilfinningaþroska
Vanræksla:
-
líkamlegum þáttum ekki sinnt, s.s. hreinlæti, næringu og viðeigandi fatnaði
-
barn skilið eftir eitt
-
öryggisbúnaði í bíl ekki sinnt
-
skólaganga vanrækt
-
þörfum barns til sérstakrar umhyggju ekki sinnt, til dæmis lyfjagjöf og heilbrigðisþjónustu
-
slæmt framferði foreldra/umönnunaraðila, s.s. líkamlegt ofbeldi á heimili og
-
vímuefnaneysla
Fyrirbyggjandi aðgerðir gegn ofbeldi
-
Gott samstarf við foreldra er undirstaða trausts í samskiptum um þennan málflokk
-
Kynning til foreldra á áætlun um Varnir og viðbrögð gegn ofbeldi/vanrækslu.
-
Hvatning til foreldra um mikilvægi hlutverks þeirra í fyrirbyggjandi aðgerðum
-
Regluleg fræðsla til starfsfólks um skilgreiningar á ofbeldi/vanrækslu
-
og birtingarmyndum/einkennum þess
-
Styrkja sjálfsmynd og sjálfstraust barnsins
-
Fræðsla til barnanna um sína einkastaði t.d. bókin Mínir einkastaðir
-
Leita skýringa á hegðun barns sem við skiljum ekki, spyrja opinna spurninga um
-
það sem barnið er að gera, s.s. hver gerir svona, hvar sástu svona
-
Fylgjast með sjálfsmynd og líðan barnanna. Skrá minnst tvisvar sinnum á ári
-
umsögn barnsins um sjálfsmynd sína í tengslum við fjölskylduna gegnum teikningar barnsins
-
Efla félagsþroska og lífsleikni barna, leggja áherslu á góð samskipti, vináttu,
-
samhygð og að setja sig í spor annarra
-
Æfa börnin í að tjá tilfinningar sínar. Vinna með kennsluefnið Stig af stigi með tvo
-
elstu árgangana, 4 - 6 ára börn. Nota kennsluefnið Hjálpfús, sögur og frásagnir.
Starfsmenn eiga ávallt að vinna með barn/börn fyrir „opnum tjöldum“ eða tveir saman.
Starfsmenn eiga að vera jákvæðar fyrirmyndir barnanna, vanda orð sín og athafnir
6.Viðbrögð við slysi
Skyndihjálp
Hinn slasaði gengur alltaf fyrir Þegar alvarlegt slys verður. Skyndihjálp er veitt út frá mati á ástandi barnsins og því haldið áfram þangað til sjúkrabíll er kominn.
Fyrstu viðbrögð – fjögur skref skyndihjálpar
-
Tryggja öryggi og koma þannig í veg fyrir frekara slys.
-
Meta ástand hins slasaða til að greina hvort um lífshættulegt ástand er að ræða eða ekki. Aðstæður á vettvangi og umkvartanir slasaðra gefa strax góða mynd af ástandinu.
-
Kalla til hjálp, hringja í Neyðarlínuna 112 .
-
Veita viðeigandi skyndihjálp á rólegan og yfirvegaðan hátt.
Lægsta stig:
Minniháttar skrámur og skurðir sem ekki þarfnast meðferðar á heilsugæslustöð eða á slysadeild. Sár sem starfsmaður má meðhöndla og setja á einfaldar umbúðir.
Dæmi: grunnt klór, kæling á kúlu, skolun á sandi úr auga
Miðstig:
Áverki sem starfsmaður metur að þarfnist meðferðar á heilsugæslustöð eða slysadeild.
Áverkinn er þess eðlis að foreldrar geta farið með barnið á heilsugæslustöð, til tannlæknis eða á slysadeild. Þó þessir áverkar þarfnist ekki í fyrstu sjúkrabíls 112 geta þeir breyst í alvarlegt stig ef ástand barns versnar skyndilega. Það þarf starfsmaður að geta metið strax og hringt í Neyðarlínuna 112. Leiki vafi á alvarleika áverka skal kalla til sjúkrabíl.
Dæmi: handleggsbrot, skurðir sem þarfnast sauma, tannáverkar, heilahristingur.
Alvarlegt stig:
Dæmi: stórir brunar, meðvitundarleysi vegna höfuðáverka eða annarra hluta, fótbrot/lærbrot, aðskotahlutur í öndunarvegi, hjarta og öndunarstopp
Mikilvægt er að starfsmenn bregðist fumlaust við og meti alvarleika ástandsins strax, virki viðbragðsáætlun, hefji viðeigandi skyndihjálparmeðferð og hringi strax í Neyðarlínuna 112. Hringt á sjúkrabíl og sjúkrakassi sóttur og eftir atvikum hjartastuðtæki sem staðsett er við eldhús á neðri hæð.
Ef hringja þarf á sjúkrabíl er best að fá einhvern nærstaddan til að hægt sé að vera áfram hjá barninu, það veitir því öryggi. Í þeim tilfellum þar sem ástandið er lífshættulegt (hjarta- og öndunarstopp, meðvitundarleysi eða köfnun) og enginn nærstaddur verður starfsmaður sjálfur að hringja í Neyðarlínuna, 112.
Mikilvægt er að sá sem hringir geti gefið allar upplýsingar, H-in 3 (Hvar? Hver? Hvað?).
Ef nauðsynlegt er að nota gögn úr sjúkrakassa má biðja þann sem fór í símann að taka hann með á bakaleiðinni. Ef það þolir ekki bið er mikilvægt að annar nærstaddur sé sendur að ná í sjúkrakassann.
Að hringja í Neyðarlínuna – 112.
Mikilvægt er að sá sem hringir í 112 gefi neyðarlínunni upplýsingar um ástandið á fyrstu 30 sekúndum samtalsins en það eru H-in þrjú:
-
H – HVAR VARÐ SLYSIÐ?
-
H – HVER ER ÞAÐ SEM HRINGIR
-
H – HVAÐ KOM FYRIR, ALDUR OG KYN, HVER ER LÍÐAN VIÐKOMANDI
Viðbrögð gagnvart vitnum og öðrum börnum á slysstað.
Hinn slasaði gengur alltaf fyrir Þegar alvarlegt slys verður. Ekki óeðlilegt að það myndist ringulreið meðal starfsfólks og barna. Til að draga úr líkum á að slíkt ástand skapist er mikilvægt að leikskólar hafi virka viðbragðsáætlun og æfi hana reglulega
Mikilvægt er að færa vitni af svæðinu sem fyrst þannig að þeir þurfi ekki að horfa upp á hið slasaða barn. Starfsfólk kannar hvaða börn urðu vitni að slysinu. Það þarf að tala sérstaklega við þau undir rólegum kringumstæðum og útskýra á sem einfaldastan hátt og út frá þroska þeirra hvað gerðist, hvert var farið með þann slasaða (ef við á) og hver var útkoman. Útskýra þarf fyrir öllum börnum leikskólans það sem gerðist. Mikilvægt er að öll börn fái réttar upplýsingar hjá hinum fullorðnu. Lítil börn túlka hluti eins og þau sjá þá en niðurstaða túlkunar þeirra er oft röng og ekki er óeðlilegt að þau verði hrædd vegna þess sem þau horfðu upp á og skilja ekki. Því er mikilvægt að allt starfsfólk leikskólans sé meðvitað um þetta og taki strax á málum til að draga úr hræðslu þeirra.
Deildarstjórar tryggja að ekkert barn telji sig ábyrgt fyrir því sem gerðist og sitji uppi með sektarkennd. Ábyrgðin er alltaf hjá hinum fullorðnu.
Í þeim tilfellum þar sem um lífshættulega áverka er að ræða og tvísýnt er um útkomu hjá slasaða barninu skal leikskólastjóri kalla strax til aðila sem uppfyllir skilyrði um áfallahjálp.
Ef slasaða barnið er fjarverandi í einhvern tíma er mikilvægt að leyfa félögum þess í leikskólanum að fylgjast með framvindu mála sjá nánar í áfallaáætlun. Deildarstjóri setur sig í samband við foreldra og fær upplýsingar um líðan barns á meðan á fjarveru stendur. Deildarstjóri er ábyrgur fyrir því að bæði börnin á deildinni og slasaða barnið fái upplýsingar frá hvort öðru t.d. með bréfasendingum eða öðrum hætti.
Í þeim tilfellum þar sem kallaður hefur verið til sjúkrabíll er algengt að lögregla komi einnig með. Það getur valdið ótta hjá börnum, því eru allar útskýringar til barnanna nauðsynlegar. Ef því verður við komið er æskilegt að lögreglan komi inn á deild til barnanna og kynni sig og spjalli við þau, skal leikskólastjóri óska eftir því við lögreglu ef við á að örðu leiti skal leikskólastjóri ásamt deildarstjóra að útskýra málið fyrir börnunum.
Mikilvægt er að láta foreldra vita áður en þeir sækja börn sín að kalla hafi þurft til sjúkrabíl og skýra frá helstu staðreyndum. Börn vilja gjarnan tala um það sem þau hafa upplifað og því mikilvægt að foreldrar hafi réttar upplýsingar til að geta rætt við börn sín og hjálpað þeim að jafna sig á því sem þau upplifðu.
Tilkynningar um slys
Mikilvægt er að ákveðin slys sem verða á börnum í leikskóla séu tilkynnt til þeirra aðila er málið varðar. Þau slys sem þarf að tilkynna eru skilgreind í kaflanum: Slys á börnum sem gera þarf lögregluskýrslu fyrir.
Tilkynningar til foreldra barns við lífshættulegs ástands barns
Þegar ástand barns er lífshættulegt er ekki æskilegt að tilkynna slysið í gegnum síma, slíkt getur stefnt foreldrum í hættu. Leikskólastjóri í samráði við lögreglu tilkynnir foreldrum um slysið og leitað er til áfallahjálparteymis slysadeildar þegar um lífshættuleg slys er að ræða. Við innritun barns á slysadeild, sjúkrahús eða heilsugæslu greinir starfsmaður (sá sem fór með barni á slysadeild) frá því hvort og hvernig slysið hafi verið tilkynnt til foreldra. Slysadeild sér um að senda aðila úr áfallahjálparteymi slysadeildar til foreldra sé þess þörf.
Tilkynning til foreldra barns, ekki lífshættulegt ástand
Öll slys sem ekki eru talin lífshættuleg t.d. beinbrot og skurðir eru tilkynnt símleiðis beint til foreldra af deildarstjóra eða leikskólastjóra, einnig skal deildarstjóri ná tali af foreldrum þegar barnið er sótt. Deildarstjóri barnsins eða leikskólastjóri sjái um að hringja í foreldra. Sé annar starfsmaður sem varð vitni af slysinu skal sá starfsmaður vera viðstaddur símtalið. Mikilvægt er að sá starfsmaður sem hringir viti nákvæmlega um ástand barnsins og hver viðbrögð leikskólans hafi verið fram að símtalinu, til dæmis hvort hringt hefur verið á sjúkrabíl eða leitað ráða hjá heilsugæslu.
Hver
Hvernig
Hvenær
Hverjir
Leikskólastjóri
Símleiðis
Strax
Foreldrar barnsins
Leikskólastjóri
Tölvupóstur
Eins fljótt og hægt er
*Annarra foreldra
Símtalið til foreldra hins slasaða
Sá sem hringir kynnir sig með nafni og segir hvaðan er hringt.
Sá sem hringir á að vera rólegur og tala skýrt.
Sagt er í stuttu máli frá því sem kom fyrir barnið og reynt að koma því strax til skila hvað sé að.
Mikilvægt er að nota ekki sterk orð og ekki kenna neinum um. Notast við staðreyndir ekki ályktanir.
Ef hringt hefur verið á sjúkrabíl er endað á að segja frá því og látið vita hvaða starfsmaður fór með barninu á sjúkrahús/heilsugæslu og hvert var farið.
Tilkynningar til annarra foreldra (ekki lífshættuleg slys)
Öðrum foreldrum er gerð grein fyrir í tölvupósti að slys hafi orðið í leikskólanum og tilgreindar eru fyrirhugaðar aðgerðir til að koma í veg fyrir að slíkt endurtaki sig.
Í tilkynningunni er mikilvægt að:
Notast við staðreyndir en ekki ályktanir
Ræða ekki börn persónulega eða með nafni. Greina aðeins frá slysinu og þeim aðgerðum sem gripið hafi verið eða verði til, til að tryggja öryggi barna, þegar við á.
Bjóða upp á möguleikanum á frekara samtali við leikskólastjóra.
Tilkynning til annarra foreldra og foreldraráðs
Mikilvægt er að öðrum foreldrum og foreldraráði sé tilkynnt um stöðu öryggismála í leikskólanum og að foreldraráði sé greint frá alvarlegum atvikum sem upp koma.
Tilkynning til rekstraraðila
Tilkynna á öll slys til skólanefndar/sveitarstjórnar til að tryggja að rekstraraðili hafi yfirlit yfir öll meiriháttar slys og geti gert viðeigandi ráðstafanir. Rekstraraðilar bera ábyrgð á því að öryggi barna sé tryggt. Rekstaraðili er auk þess ábyrgur fyrir fjármálum og því mikilvægt fyrir hann að hafa þessar upplýsingar t.d. þegar hann undirbýr fjárlög. Þetta ætti einnig að hjálpa honum í forgangsröðun viðhalds. Mikilvægt er að verkferlar varðandi tilkynningar til rekstraraðila og þeirra sem hafa eftirlit með húsnæði og leiksvæðum á vegum rekstraraðila séu skýrir þannig að leikskólastjóri viti hvert hann á að tilkynna slys. Verkferlarnir og gerð þeirra er á ábyrgð rekstraraðila. Yfirleitt er ákveðnum starfsmanni í sveitarfélaginu falið eftirlit með starfsemi leikskólans.
Tilkynning til Heilbrigðiseftirlitsins
Heilbrigðiseftirlit viðkomandi sveitarfélags veitir leikskóla starfsleyfi að uppfylltum ákveðnum skilyrðum. Starfsleyfisskilyrðin taka m.a. á öryggi og slysavörnum, húsnæði og búnaði, leikföngum, lóð, leikvallatækjum og leiksvæði, skráningu slysa og reglubundnu innra eftirliti. Sjá nánar Starfsleyfisskilyrði fyrir leikskóla og grunnskóla á vef Umhverfisstofnunar. Heilbrigðiseftirlit sveitarfélaga gerir árlega athugun á að kröfum um öryggi sé framfylgt og að reglubundið innra eftirlit hafi farið fram. Ef rekja má slys til vanbúnaðar/bilunar á húsnæði, lóð eða öðrum þáttum sem fram koma í starfsleyfisskilyrðum leikskóla skal tilkynna viðkomandi heilbrigðiseftirliti um slysið. Hægt er að senda tilkynningu rafrænt á vef Umhverfisstofnunar en einnig má senda þeim afrit af slysaskráningarblaði.
Tilkynningar til tryggingafélaga
Í þeim tilfellum þar sem slys á barni er þess eðlis að gera þarf lögregluskýrslu þarf að tilkynna slysið til viðkomandi tryggingafélags. Um er að ræða þau tilfelli þar sem eftirmál geta orðið vegna slyssins og því nauðsynlegt að slysatilkynning sé skilvirk til að réttindi barns séu tryggð síðar. Einnig getur þurft að tilkynna til tryggingafélags af öðrum ástæðum. Dæmi: Barn er flutt með sjúkrabíl vegna gruns um fótbrot. Í ljós kemur að barnið hefur tognað og því ekki um alvarlega áverka að ræða og því ekki nauðsynlegt að gera lögregluskýrslu. Nauðsynlegt getur verið í þessu tilfelli að tilkynna atvikið til tryggingarfélagsins vegna tryggingarmála.
Eftirfylgni, Viðtal við foreldra hins slasaða eftir alvarlegt slys
Þegar niðurstöður könnunar á slysi liggja fyrir er mikilvægt að leikskólastjóri bjóði foreldrum barnsins sem slasaðist viðtal. Í viðtalinu er farið yfir athugun leikskólans á tildrögum slyssins og hvað leikskólinn hyggst gera í framhaldinu. Leikskólastjóri þarf að hafa allar upplýsingar og staðreyndir um málið áður en hann tjáir sig um það.
Skráning slysa
Eftir að slys hefur átt sér stað er mikilvægt að fara yfir skráningar á slysinu og öryggisatriði skólans.
Skráning slysa er mikilvægur hluti af innra og ytra eftirliti leikskólans. Leikskólastjóri tekur saman í lok hvers árs hvar, hvenær og hvernig slys hafa átt sér stað og skoðar t.d. hvar hættur í leikskólanum er að finna eða hvort eftirlit starfsfólks með börnum sé fullnægjandi. Í ársskýrslu leikskólans skal taka fram fjölda slysa ár hvert.
Slysaskráningarblað
Öll slys þar sem barn hefur hlotið það mikinn áverka að það þarfnast meðferðar hjá tannlækni, slysadeild, barnaspítala, heilsugæslustöð eða hjá sérfræðingi, ber starfsmanni sem varð vitni að slysinu að skrá á slysaskráningarblað ásamt leikskólastjóra, leikskólastjóri tekur við skráningunni.
Minniháttar áverka þar sem ekki er hætta á frekari afleiðingum skráir deildarstjóri og afhendir leikskólastjóra. Í þeim tilfellum þar sem leikskólastjóri óskar eftir því að slys sé skráð skal það gert.
Hver
Hvernig
Hvenær
Hver fær blaðið
Sá sem veit mest um slysið – helst sá sem sá það sem gerðist. Auk deildarstjóra (ef minniháttar slys) auk leikskólastjóra (öll slys önnur en minniháttar slys)
Skráir beint á blaðið
Sem má finna í möppunni á ganginum
Samdægurs þótt beðið er eftir upplýsingum um endanlegan meðferðaraðila. Óskað skal eftir þeim upplýsingum strax daginn eftir frá foreldrum.
Leikskólastjóri
Meginreglan er að foreldrar þurfa ekki að kvitta á slysaskráningarblöðin. Hins vegar er nauðsynlegt að foreldri kvitti á slysaskráningarblaðið í þeim tilfellum þar sem starfsmaður leikskóla hefur metið áverkann á þann hátt að það þurfi að fara með barnið til læknis/hjúkrunarfræðings en foreldri ákveður að fara ekki eftir þeim tilmælum. Í slíkum tilfellum er mikilvægt að fá undirskrift foreldra á skráningarblaðið. Dæmi um texta sem foreldrar eru beðnir um að skrifa neðst á skráningarblaðið: „Ég undirrituð móðir/faðir barnsins (nafn barns) hef tekið þá ákvörðun að fara ekki eftir tilmælum leikskólans um aðhlynningu fyrir barnið á slysadeild eða heilsugæslu.“ Viðkomandi undirritar með dagsetningu. Foreldrum er alltaf heimilt að skoða blaðið og fá afrit af því.
Slysaskráningarblaðið er trúnaðarmál og má því ekki afrita né afhenda það öðrum en þeim sem hafa heimild til að skoða það s.s. heilbrigðiseftirlitinu sem ber að skoða þessi blöð til að kanna fjölda slysa og ástæður þeirra sem hluta af sínu ytra eftirliti. Ef beðið er um skráningarblaðið af öðrum þarf leyfi foreldra. Tilgangur beiðninnar þarf að vera skýr, s.s. ef verið er að vinna rannsóknir. Mikilvægt er að einungis þeir sem uppfylla allar kröfur um rannsóknarheimildir og meðferð persónuupplýsinga fái aðgang að slysaskráningarblöðum í rannsóknarskyni
Hvað er gert við slysaskráningarblöðin?
Slysaskráningar barns eru geymdar í persónumöppu barns, auk þess er afrit allra slysaskráninga geymit í slysaskráningamöppu leikskólastjóra. Þegar barn hættir á leikskólanum fer slysaskráningarblaðið ásamt öðrum persónugögnum barns í varðveislu á héraðsskjalasafni Suðurlands.
Skráning tilkynningar um atburði, aðstæður eða aðbúnað sem gæti valdið slysi.
Mikilvægt er að starfsmenn upplýsi leikskólastjóra um öll atvik sem túlka má sem „næstum því slys“ til að koma í veg fyrir að það endurtaki sig. Skrá skal allar slíkar tilkynningar á eyðublaðið
,,næstum því slys“ sem má finna aftast í þessari áætlun. Mikilvægt er að fram komi dagsetning, nafn þess sem lætur vita og undirskrift leikskólastjóra. Draga skal saman í árskýrslu leikskólans allar slíkar tilkynningar og hvernig brugðist var við þeim og staða þeirra mála.
Dæmi: Barn klifrar upp í bókahillu. Bókahillan fellur frá vegg með barninu áhangandi. Starfsmönnum tekst að grípa hilluna og forða því að hún falli yfir barnið og mögulega slasi það.
Lögregluskýrsla
Ef alvarlegt slys verður í leikskóla eða slys sem veldur barni áverka sem hugsanlega getur tekið sig upp síðar á ævinni er mikilvægt að gera lögregluskýrslu. Skýrslan er varðveitt hjá lögreglu. Leikskólastjóri getur óskað eftir afriti af henni ef þörf krefur. Í þeim tilfellum sem hringt er á sjúkrabíl kemur lögregla oftast með. Lögregla biður um ýmsar upplýsingar tengdar slysinu. Það er ekki lögregluskýrsla heldur skýrsla vegna útkalls sjúkrabíls; því þarf að fá lögreglu á staðinn til að gera sérstaka lögregluskýrslu um atvikið eða biðja um að hún sé gerð samhliða skýrslu vegna útkalls sjúkrabíls.
Leikskólastjóri ber ábyrgð á að lögregluskýrsla sé gerð. Hægt er að óska eftir því að hún sé gerð eftir á. Til að hægt sé að meta hvenær á að gera lögregluskýrslu þarf oft að bíða eftir að læknisskoðun hafi farið fram.
Ef gerð er lögregluskýrsla á að upplýsa foreldra og rekstraraðila um það.
Slys á börnum sem gera skal lögregluskýrslu fyrir:
-
Öll alvarleg slys t.d. áverkar á innri líffærum, drukknun, umferðarslys.
-
Höfuðhögg. Heilahristingur, brot, umtalsverð blæðing, bjúgur eða annar alvarlegur áverki.
-
Brunaslys. Ef meira en 8-10% af líkamanum er brenndur og sár eru djúp.
-
Öll beinbrot. Sama hversu lítil þau virðast vera. Komi í ljós að grunur um beinbrot er ekki réttur og barnið hefur aðeins tognað illa þá er óþarfi að gera lögregluskýrslu.
-
Tannáverkar. Alla áverka á tönnum þar sem staðfest er eða grunur er um að fullorðinstennur hafi skaddast.
-
Augnáverkar. Allir alvarlegir augnáverkar t.d. skert sjón.
-
Klemmuáverkar. T.d. fingur fer af eða hangir á húðpjötlu.
Endurskoðun öryggismála eftir slys
Eftir slys er mikilvægt að fara vel yfir það sem gerðist og kanna hvort unnt hefði verið að fyrirbyggja það. Áður en farið er í slíka vinnu þarf að ganga úr skugga um að starfsfólk sem hlut á að máli eigi ekki um sárt að binda. Ef einhverjum starfsmönnum líður illa er mikilvægt að þeir fái viðhlítandi áfallahjálp áður en greiningarvinnan á sér stað.
Í mörgum tilvika alvarlegra slysa í leikskólum eru engin vitni og því liggja ekki alltaf fyrir upplýsingar um atburðinn. Til að koma í veg fyrir slíkt er mikilvægt að:
Gera áhættumat á öllum svæðum leikskólans bæði inni og úti.
Endurgert áhættumat skal geyma í möppu þessari (fram á gangi). Það skal unnið af viðbragðsteymi skólans eins fljótt og unnt er og eigi síðar en mánuði eftir slys. Matið skal dagsett og undirritað af viðbragðsteymi skólans.
Gera teikningu af lóðinni og gera áhættumat þar sem öll falin og hættuleg svæði eru skilgreind og merkt.
Tryggja að mönnun sé í samræmi við áhættumat og að starfsmenn hafi yfirlit yfir öll svæði skólans þar sem börn eru, bæði úti og inni.
Ef starfsmaður þarf að víkja frá því svæði sem hann einn hefur yfirsýn yfir gerir hann öðrum viðvart til að tryggja gæslu allra svæða.
Fara yfir allar aðstæður og verkferla þegar alvarleg atvik eiga sér stað og ræða ábyrgð starfsmanna. Ræða þarf hvað gerðist, hvernig var staðið að öryggismálum, t.d. hvers vegna ekki var starfsmaður á slysstað (ef við á) og ákveða hvernig verkferlum verði breytt til að koma í veg fyrir að slíkt endurtaki sig.
Tryggja að allir starfsmenn þekki áhættumatið og verkferla því tengda.
7.Viðbrögð við áföllum
Sé leikskólanum kunnugt um eða verið gert viðvart um að breytingar hafi orðið á aðstæðum barns/starfsmanns vegna alvarlegra slysa, veikinda, sjúkdóma, dauðsfalla eða annarra áfalla, skal leikskólastjóri gera viðbragsteymi skólans viðvart sem tekur ákvörðun í samráði við hlutaðeigandi hvort og þá til hvaða aðgerða skuli gripið. Tillitssemi við hlutaðeigandi skal í hávegum höfð. Allar aðgerðir skólans skal bera undir hlutaðeigandi til samþykkis og þeir þurfa að vera með í ráðum frá upphafi.
Leikskólastjóri er tengiliður skólans við fjölmiðla og ávallt skal vísa á hann.
Alvarleg veikindi eða slys utan leikskólatíma
Starfsfólki (og börnum ef við á) er greint frá því ef barn eða starfsmaður þarf að vera langdvölum frá leikskóla vegna alvarlegra veikinda. Viðbragðsteymi skipuleggur fræðslu fyrir starfsfólk og eftir atvikum fyrir börn, um einkenni sjúkdóms eða veikinda.
Allar aðgerðir skólans þarf að bera undir aðstadendendur til samþykkis og þeir þurfa að vera með í ráðum frá upphafi.
Þegar barn kemur aftur í leikskólann:
Lagt er mat út frá aldri barna og þroska barnanna, hvernig hægt sé að undirbúa hópinn þegar barnið kemur aftur í leikskólann, það getur auðveldað viðkomandi endurkomuna.
Hafi barnið aldur og þroska til, þá ræðir deildarstjóri við barnið þegar það kemur aftur í leikskólann og hlusta eftir því hvernig því líður og hverju það kann að kvíða.
Deildarstjóri fylgir viðkomandi barni sérstaklega eftir næstu vikur.
Andlát barns eða starfsmanns
Leikskólastjóri hefur samband við aðstadendur og aflar staðfestra upplýsinga. Leikskólastjóri kallar saman viðbragðsteymi skólans og mögulega sóknarprest strax (óháð tíma og dags). Á þeim fundi ákveður viðbragðsteymi fyrstu viðbrögð skólans og skiptir með sér verkum.
Ganga þarf úr skugga um að náin skyldmenni hins látna, sem eru innan leikskólans, fái fréttirnar einslega en ekki í stórum hópi.
Viðbrögð við andláti barns eða starfsmanns sem gerist utan leikskólans á starfstíma leikskólans:
Leikskólastjóri kallar til utanaðkomandi aðila.
Leikskólastjóri biður foreldra um að sækja börnin í leikskólann.
Strax í kjölfarið tilkynnir leikskólastjóri eða utanaðkomandi aðili, starfsfólki á hverri deild fyrir sig um andlátið og skoðar á sama tíma hvort þörf sé á að starfsfólk aðstoði á milli deilda og fylgist með ástandi starfsfólks.
Starfsfólk skólans safnast saman þegar öll börn eru farin.
Starfsfólki boðin áfallahjálp
Viðbrögð við andláti barns eða starfsmanns utan starfstíma leikskólans:
Leikskólastjóri kallar til utanaðkomandi aðila og viðbragðsteymi skólans.
Leikskólastjóri sér til þess að andlátið sé tilkynnt starfsfólki símleiðis og biður fólk jafnframt um að fylgjast með tölvupósti um næstu skref.
Leikskólinn er lokaður daginn eftir.
Starfsfólk boðað til vinnu næsta virka dag og því boðin áfallahjálp og farið er yfir næstu skref.
Fáni er dreginn í hálfa stöng við skólann þegar búið er að tilkynna um andlátið.
Alvarlegt slys eða andlát sem gerist í leikskólanum fellur undir viðbrögð við slysum hér að ofan.
Vinna innan leikskólans í kjölfar andlátsins (Fer eftir aldri og þroska barnanna):
Deildarstjórar og séu með sínum hópum allan daginn.
Hafa kerti logandi inn á deild.
Börnum gefið tækifæri til að ræða atburðinn ef um atburð er að ræða og tilfinningar sem eflaust hafa kviknað í framhaldinu.
Viðbragðsteymi og aðrir sem hafa verið kallaðir til verði til taks ef á þarf að halda.
Deildarstjórar hringja heim og tilkynni foreldrum um atburðinn.
Hringt heim til foreldra allra barna þar sem greint er frá atburðinum og því hvernig skólastarfið verði næstu daga. Fulltrúar leikskólans fara í heimsókn til aðstandenda með samúðarkveðju einhvern næstu daga á eftir.
Dæmi um vinnu næstu daga á eftir (fer eftir aldri og þroska barnanna):
Kveikt á kerti og það látið loga fram yfir jarðarför.
Börnin útbúa samúðarkveðju.
Eigur látna nemandans eru fjarlægðar smátt og smátt úr skólastofunni og þess gætt að fjarlægja ekki allt í einu.
Mikilvægt er að leyfa börnum að tjá tilfinningar sínar og segja frá eigin reynslusögum.
Alvarleg veikindi eða slys hjá nánum aðstandenda barns eða starfsmanns
Leikskólastjóri fær staðfestingu á veikindum hjá foreldri barns.
Viðbragðsteymi fundar um málið og ákveður í samráði við foreldra barns hvernig eigi að vinna það.
Viðbragðsteymi kemur upplýsingum til þeirra sem málið varðar.
Andlát náins aðstandenda barns eða starfsmanns
Nánir aðstadendur barns eru systkini og foreldrar, Náin aðstadendur starfsfólks eru maki og börn.
Leikskólastjóri fær staðfestingu andláts.
Viðbragðsteymi fundar um málið og ákveður í samráði við foreldra barns hvernig eigi að vinna það. Viðbragðsteymi kemur upplýsingum til þeirra sem málið varðar.
Athugið að allar aðgerðir skólans þarf að bera undir viðkomandi hlutaðeigandi foreldra til samþykkis og mikilvægt að hafa þá með í ráðum frá upphafi.
Athuga þarf sérstaklega hvort náin skyldmenni séu innan skólans og láta þau vita einslega en ekki í hópi.
Leikskólastjóri tilkynnir starfsfólki skólans um andlátið.
Deildarstjóri stjórnar áframhaldandi vinnu með börnunum og leitar aðstoðar hjá viðbragðsteymi skólans eftir þörfum.
Hópurinn getur útbúið samúðarkveðju.
Leikskólastjóri sendir samúðarkveðju frá skólanum til fjölskyldu.
8.Viðbrögð við jarðskjálfta
Farið í horn burðarveggja, opnar dyr eða undir borð. Forðið ykkur frá svæðum þar sem hlutir geta fallið úr hillum.
Krjúpa – Skýla - Halda
Ekki hlaupa út í óðagoti. Ekki nota lyftur. Yfirgefa húsið ef það er skemmt eftir jarðskjálftann
9.Viðbrögð við eldsvoða
Hugtök og skýringar
Viðbragðsstaða: er að safna börnum saman í röð við inngang og kanna flóttaleiðir og hafa nafnalista tilbúinn.
Yfirmaður: Leikskólastjóri eða sá sem er hæstráðandi hverju sinni.
Viðvörunarkerfi: kerfi sem er staðsett við inngang á neðri hæð og brunabjöllur
Lykilstarfsmaður: Sá sem er hæstráðandi á hverju svæði fyrir sig.
Rýming: Farið út úr húsinu þá leið sem er fljótlegust
Söfnunarstaður: staður til að koma saman á eftir rýmingu. Sundlaugin.
Nafnalisti: Er aðgengilegur á netinu og skal fólk fara strax í símann sinn og finna nafnalista og gera nafnakall. Hægt er að taka einnig með sér nafnalistann af deildinni.
Viðvörunarkerfi
Eldur:
Brjótið næsta handboða
Eða snúið lykli til hægri
á stillingu ,,Hringja”
Ekki eldur:
Ýtið á takka
Endurstilla
Þegar
bjöllur fara aftur í gang
Hætta!
ALLIR ÚT!
Takkar sem nota þarf á stjórnstöð
0 Snúa lykli, Stöðva hljóðgjafa
0 Snúa lykli, Hringja
Endurstilla
Kerfið er tengt vaktstöð. Eftir smá stund er hringt frá vaktstöðinni til að kanna hvað valdi boðunum. Svarið símanum ef mögulegt er og segið frá ástandinu.
1.
Ef ekki er hringt frá vaktstöð.
HRINGJA: Samræmt neyðarnúmer er 112
Talið skýrt og rólega, útskýrið vandamálið
Tilgreinið húsnúmer, götu og sveitarfélag
2.
Bjarga: Bjargið sjálfum ykkur og nemendum, takið nafnalistann.
Kennari sér um sinn hóp og hefur nafnakall úti
á söfnunarstað eftir nafnalista.
Verið viss um að allir komist út, börn geta falið sig víða.
3.
Slökkva: Þegar rýmingu er lokið skal huga að slökkvistarfi.
Ef boð koma frá kerfinu er mjög mikilvægt að bregðast alltaf við og athuga hvað veldur boðunum. Hugsið aldrei að einhver annar eigi að kanna málið, gangið alltaf strax úr skugga um að það hafi verið gert. Nóg er að einn af hverju svæði kanni málið.
Bjallan hringir:
Allir starfsmenn
Allir starfsmenn fara með börnin í viðbragðsstöðu og halda henni þar til yfirmaður hefur heimilað annað.
Lykilstarfsmaður
fer að stjórnstöð kerfisins og framkvæmir eftirfarandi:
Á stöð logar ljós sem á stendur ,,Eldur”.
Snúa lykli um eitt pall til að Stöðva hljóðgjafa.
Á upplýstum takka sést hvaða rás sendi boðin.
Finna á uppdrætti á hvaða svæði viðkomandi rás er.
Fara strax og kanna hvað valdi boðunum.
Raunveruleg eldboð
Ef um eld er að ræða, skal þegar í stað vara alla við með því að snúa lykli áfram eitt pall
Hringja, eða brjóta næsta handboða.
Þá fer bjallan aftur í gang og starfsfólk skal hefja rýmingu.
Falsboð
Ef engin merki finnast um eld á því svæði sem boðin komu frá er mikilvægt að finna skynjarann sem sendi boðin, hann finnst á því að lítið gaumljós logar á skynjara sem hefur sent boð.
Mikilvægt er að skrá öll falsboð í þjónustubók sem fylgir kerfinu. Að lokum skal endursetja kerfið með því að þrýsta á hnapp ,,Endurstilla”
Jafnvel þó takist að slökkva eldinn strax getur verið nauðsynlegt að leita aðstoðar slökkviliðs, til að reykræsta húsið og meta hvort hætta er á frekari eldi.
10.Rýmingaráætlun
Kalla eftir aðstoð við rýmingu ef þess þarf.
Fara hratt en skipulega með börnin út á söfnunarsvæði.
Á söfnunarsvæði skal strax framkvæma nafnakall og láta vita ef það vantar barn.
Á söfnunarsvæði skulu starfsmenn vera með þeim hóp sem það var með fyrir rýmingu.
Bjarga:
Yfirmaður tekur ákvörðun um rýmingu, deilir verkefnum á starfsmenn og tekur með nafnalistann. Mikilvægt er að starfsmaður sjái um þann hóp sem viðkomandi var með þegar rýming hófst. Hafa skal nafnakall eftir nafnalista þegar komið er á söfnunarstað. Þegar að stofan er yfirgefin skal loka hurðum. Mikilvægt er að allir fari síðan í anddyri sundlaugarinnar og bíði þar uns stjórnandi gefur leyfi til að yfirgefa staðinn. Ef í ljós kemur við nafnakall að einhvern vantar er mikilvægt að þær upplýsingar berist strax til Neyðarlínu og slökkviliðs.
Slökkva:
Þegar stjórnandi sér að 1. og 2. liður á planinu eru að klárast og ef einhver er tiltækur skal hefja slökkvistarf. Rjúfið straum af húsinu ef hægt er að komast að rafmagnstöflunni. Taflan er í vélarrúmi lyftu á fyrstu hæð. Lykill af hurðinni er upp á dyrakarminum. Í töflunni, neðst til vinstri, er rofi sem er merktur ,,Aðalvar”. Slökkvitæki og brunaslöngur eru víðsvegar um húsið, hver og einn á að kynna sér hvar slökkvibúnaður er staðsettur.
Slökkvilið kemur á staðinn. Yfirmaður gefur stjórnanda slökkviliðs upplýsingar um hvort einhverjir og þá hversu margir hafi orðið eftir inni og hugsanlega staðsetningu þeirra.
Upplýsa:
Láta foreldra vita. Hafa samband (eftir nafnalista) við foreldra barna til að tryggja að upplýsingar um atburðinn berist eftir réttum leiðum.
Sárænn stuðningur:
Leikskólastjóri metur hvort leita þurfi eftir aðstoð utanaðkomandi til að veita börnum, starfsfólki og- eða foreldrum sálrænan stuðning eða áfallahjálp.
Grunnuplýsingar fyrir rýmingu
Fólksfjöldinn:
Börn eru um 44 talsins og starfsmenn um 15 talsins. Merkt er við þegar börn koma og fara inn í appinu Kinderpedia. Mikilvægt er að starfsfólk taki deildarsíma með sér út í rýmingu.
Hreyfigeta fólksins:
Yngstu börnin eru um eins árs og ganga ekki öll. Eldri börnin þurfa einnig mikla aðstoð vegna vanhæfni að meta aðstæður.
Fjöldi aðstoðarfólks:
Ekki ætti að vera nauðsynlegt að kalla til aðstoðarfólk vegna rýmingar. Það fólk sem er á staðnum ætti í öllum tilfellum að ráða við að rýma húsið. Það er fyrst þegar kemur að slökkvistarfi sem aðstoðar getur verið þörf. Fólk á elstu deild aðstoðar á yngstu deild eða að þeir sem ekki eru með börn hugi fyrst að yngstu börnunum og/eða þar sem þörf á aðstoð er mest.
Tíminn til rýmingar:
Tími til rýmingar er ekki mikill, vegna þess að eldur þróast hratt ef ekkert er að gert. Brunaviðvörunarkerfi er í húsinu og þar af leiðandi á eldur að uppgötvast strax á byrjunarstigi.
Rýmingarleiðir:
Rýmingarleiðir eru 2 úr hverri stofu, sumstaðar beint út og fram á gang. Útgangar af ganginum eru merktir með út-ljósum. Vegna þess að útidyrahurðir opnast út, þarf að gæta þess að ekki safnist snjór fyrir hurðirnar að vetrinum. Söfnunarstaður og lokastaður er anddyri sundlaugarinnar. (ATH vantar ennþá ný ljós eftir framkvæmdir og nýjar teikningar).
Lokastaður:
Lokastaður hefur verið valinn í Anddyri Sundlaugarinnar. Til vara er heima hjá Helgu á Holtabraut 6. Lykill er á snaga á veggnum vinstra megin við hurðina á neyðarútganginum. Lykill er á snaga á hillunni sem er beint á móti hurðinni í Heklu. Leikskólastjóri er einnig með lykil á kippunni sinni. Lyklabox er við aðalinngang leikskólans þar sem eru lyklar af sundlaug, matsal og leikskólanum sjálfum.
Viðbragðsaðilar
Viðbragðsteymi skólans
Anna Greta Ólafsdóttir, Leikskólastjóri
Helga Guðlaugsdóttir, deildarstjóri
Sigríður Björk Gylfadóttir, deildarstjóri og staðgengill leikskólastjóra
Haukur Vatnar Viðarsson, deildarstjóri og öryggistrúnaðarmaður.
Öryggistrúnaðarmaður
Haukur Vatnar Viðarsson, deildarstjóri elstu deildar
Öryggisvörður
Anna Greta Ólafsdóttir, leikskólastjóri
Viðbragðsaðilar utan skólans
Prestur (Séra Óskar H. Óskarsson)
Heilsugæslulæknar og hjúkrunarfræðingar (Laugarás)
Skólaþjónustu Árnesþings (sálfræðingur o.fl.)
Lögregluna á Suðurlandi
Nánari lýsing á hlutverkum viðbragðsaðila
Viðbragðsteymi:
Við leikskólann Leikholt starfar viðbragðsteymi. Hlutverk teymisins er að bregðast við og samræma aðgerðir sem gripið er til ef stór áföll verða í skólastarfi eða einkalífi barna eða starfsmanna, s.s. langvinnir sjúkdómar, veikindi, slys eða dauðsföll. Viðbragðsteymi fer með verkstjórn og styður kennara í aðhlynningu þeirra við börn og samstarfsfólk. Leikskólastjóri ber ábyrgð á að kalla saman viðbragðsteymið og stýra vinnu þess og skipulagi.
Teyminu er einnig ætlað að verkstýra við válega atburði. Huga að óskum þeirra fjölskyldna sem hlut eiga að máli hverju sinni. Sinna forvinnu og forvörnum með kynningum fyrir allt starfsfólk, börn og foreldra. Fá hjálp og stuðning fyrir starfsfólk skólans. Funda eins fljótt og mögulegt er ef válegur atburður hefur orðið, óháð dagsetningu og tíma.
Öryggistrúnaðarmaður
Öryggistrúnaðarmaður er aðili sem er kosinn af samstarfsmönnum til að sinna vinnuverndarstarfi innan vinnustaðarins. Hann sinnir vinnuvernd í samvinnu við öryggisvörð (leikskólastjóra) og fylgist með því að aðbúnaður, hollustuhættir og öryggi á vinnustað séu í samræmi við vinnuverndarlög.
Öryggisvörður
Öryggisvörður sinnir vinnuverndarstarfi innan vinnustaðarins. Hann sinnir vinnuvernd í samvinnu við öryggistrúnaðarmann og fylgist með því að aðbúnaður, hollustuhættir og öryggi á vinnustað séu í samræmi við vinnuverndarlögin.