Skýrsla leikskólastjóra
Skýrsla leikskólastjóra
23.5.25, 12:00
Tímabilið apríl og maí 2025
Árshátíð Leikholts var haldin hátíðlega þann 10. apríl fyrir fullum sal gesta. Sýningin var sglæsileg að vanda, og ekki var undirbúningurinn síðri – mikil stemning ríkti í leikskólanum í aðdraganda hátíðarinnar.
Fljótlega eftir árshátíðina tóku páskarnir við og þar með voru nokkrir svokallaðir skráningadagar. Bætt var við skráningadögum í kringum páskafríið þar sem talið var að það gæti nýst foreldrum, og einhverjir nýttu sér þá. Hins vegar dreifðist skráning þannig að lítið var um að dagarnir nýtust til orlofstöku starfsfólks – heldur nýttust þeir í önnur innanhússverkefni, eins og vinnu tengda SÍ-verkefninu, sem kom sér einnig vel.
Apríl raðaðist þannig í ár að fáar vikur voru heilar og margt sem þurfti að komast að innan takmarkaðs tíma. Eins og venjulega á þessum tíma árs fóru fram starfsþróunarsamtöl milli leikskólastjóra og starfsfólks. Þau stóðu yfir fram í lok apríl, en vegna forfalla náðist ekki að klára þau öll og er áætlað að þeim verði lokið nú í þessari viku. Þar sem leikskólastjóri fer í frí í næstu viku – og tíminn líður hratt – verður júní genginn í garð áður en við vitum af.
Starfsþróunarsamtölin eru mikilvægur liður í að meta starfið á skólaárinu og skipuleggja það næsta – bæði varðandi endurmenntun og starfsþróun og einnig þegar kemur að deildarskipan og almennu skipulagi.
Talmeinafræðingur hefur verið hjá okkur nú í nokkur skipti, sem hluti af nýju fyrirkomulagi hjá Skóla- og velferðarþjónustu Árnesþings (SVÁ). Við fögnum því að verið sé að koma á breyttu fyrirkomulagi þar sem utanaðkomandi sérfræðingar komi meira að daglegu starfi. Við hefðum þó gjarnan viljað fá meiri upplýsingar um fyrirkomulagið og haft meiri aðkomu að mótun þess.
Elín Ásta Ásmundsdóttir kom aftur til starfa eftir Asíureisu og er mætt aftur á Hestfjall, eins og hún var á áður en hún fór. Nú í lok maí komu einnig aftur til starfa Sigurlína Hermannsdóttir og Heiða Lára Bjarnadóttir. Þær verða með okkur fram á sumar og komu inn aðeins fyrr en áætlað var vegna forfalla.
Nú snúast helstu verkefni leikskólastjóra um innra mat – að fara yfir skólaárið og skipuleggja þá næsta. Við erum einnig að vinna að því að koma handbókinni fyrir SÍ-verkefnið endanlega saman, en það verkefni tengist jafnframt endurskoðun á skólanámskránni okkar og innleiðingu nýrrar skólastefnu sveitarfélagsins. Einnig hefur verið boðað til fundar í stýrihóp um leikskólalóðina til þess að fara yfir stöðu mála á því verkefni og áætlað er að hópurinn fundi fyrir sumarfrí. Þannig að það er nóg um að vera við lyklaborðið þessa dagana.
Boðað hefur verið til fundar hjá stýrihóp leikskólalóðarinnar til þess að fara yfir verkáætlun leikskólalóðarinnar.
Verkefnin hjá börnunum og starfsfólkinu eru þó af allt öðrum toga – nú eru flest komin með fasta mold undir neglurnar, enda mikið verið að rækta í Bambahúsinu og víðar. Börnin hafa einnig verið mikið úti í náttúrunni þar sem veðrið hefur heldur betur kallað þau til sín.
Fyrir helgi fóru yngri börnin í lambaferð að Húsatóftum til Elínar Moquist og þökkum við henni kærlega fyrir að taka alltaf svona vel á móti okkur. Á sama tíma eru eldri börnin í þessum töluðu orðum í lambaferð að Vorsabæ hjá Stefaníu og Birni. Það er aðeins lengri ganga og venjan er að grilla á staðnum og njóta sveitarsælunnar í lengri tíma. Við viljum þakka þeim einnig kærlega fyrir að taka alltaf svona vel á móti okkur. Samstarf líkt og þetta við grenndarsamfélagið er dýrmætt.
Anna Greta Ólafsdóttir, leikskólastjóri
Leikskólinn Leikholt