top of page

Staður augnablikanna

Staður augnablikanna

7.2.23, 22:00

Pistill leikskólastjóra

Þann 6. febrúar var dagur leikskólans. Í þeirri kyrrð sem fylgdi óveðrinu í gær gafst mér rými til að hugsa aðeins til leikskólastarfsins og þennan óvænta vettvang sem ég steig inn á fyrir um þremur árum síðan.


Ég vil meina að ég hafi verið einstaklega lánsöm með leikskóla. Ekki bara vegna þess að við erum svo heppin að vera ekki í verkfalli þessa stundina, heldur vegna svo ótal margra annarra þátta sem gera skólann okkar góðan. Ég viðurkenni að ég hafði lítið spáð í leikskólastiginu, enda nánast alla tíð starfað á grunnskólastiginu, þó ég hafði reyndar alltaf verið þeirrar skoðunar að grunnskólinn ætti frekar að horfa til leikskólans en öfugt. , En það var ekki fyrr en núna, þegar ég er sjálf orðin hluti af leikskólastiginu, sem ég áttaði mig á þeirri óþrotlegri auðlegð sem þar býr.


Það er eitthvað sérstakt við leikskólastigið – og að ég vil meina við okkar leikskóla. Hvað það nákvæmlega er erfitt að setja fingurinn á. Er það stærðin? Smæðin? Samfélagið sem við myndum saman, starfsfólk, foreldrar og börn? Ekki eru það börnin í sjálfum sér, því öll börn eru dýrð, hvert og eitt og börnin okkar eru engin undantekning frá því. En ég held að þetta sérstaka eigi rætur í því ósýnilega – stemningunni og menningunni sem við sköpum saman.


Einn leikskólakennarinn okkar orðaði það vel, og var það eitthvað á þessa leið "Það er svo gott flæði í Leikholti. Tækifæri til að nýta stað og stund, sem oft gefst ekki alltaf í stærri skólum." Þessi orð sitja eftir í mér. Því einmitt þetta er börnum – og okkur öllum – ómetanlegt.


Að leiða hugann að því að ekki öll börn fái góða umönnun frá þeim sem annast þau er einfaldlega óbærileg hugsun sem er samt eitthvað sem er mikilvægt að minna sig á, því það er alltaf helsta og göfugasta markmið allra sem vinna með fólki á mikilvægasta aldurskeiði í lífi hverrar manneskju, að gefa henni besta mögulega tækifæri til þess að læra og blómstra.


Við í leikskólanum vitum að við erum hluti af einhverju stærra og það er göfug og góð tilfinning.

bottom of page