top of page

Mánaðarskýrsla leikskólastjóra - mars 2025

Mánaðarskýrsla leikskólastjóra - mars 2025

7.4.25, 12:00

Skýrsla leikskólastjóra

Mars og apríl hafa verið annasamir mánuðir í Leikholti, þar sem ýmis verkefni hafa verið unnin samhliða daglegu starfi. Það hefur verið gleðiefni að fá starfsfólk aftur úr leyfum, taka þátt í sameiginlegum viðburðum með öðrum skólum og sjá börnin blómstra í leik og námi. Hér fyrir neðan má sjá helstu atriði tímabilsins.

Ný börn

Eitt nýtt barn hóf leikskólagöngu hjá okkur á tímabilinu. Fyrirhugað var að tvö börn myndu byrja, en aðeins annað þeirra mætti til leiks að þessu sinni.

Starfsmannamál

Það hefur glatt okkur að fá Önnu Maríu aftur til starfa eftir fæðingarorlof og Elínu Ástu heim aftur eftir þriggja mánaða Asíureisu. Þær koma báðar inn með kraft og reynslu sem skiptir miklu máli í daglegu starfi leikskólans. Starfsmannastaðan hefur verið svolítið brothætt undanfarna mánuði, en með þessum breytingum hefur ástandið skánað til muna og færum við okkur aftur í betra jafnvægi.

Viðburðir og heimsóknir

Við fórum með elstu börnin á Heklu og öll börnin á Vörðufelli á glæsilega árshátíðarsýningu Þjórsárskóla, sem var bæði skemmtileg og innblástursrík.
Nú líður að því að börnin í skólahópnum fari í næstu heimsókn sína einn síns liðs í Þjórsárskóla þar sem þau fá að taka þátt í skólastarfinu og kynnast væntanlegu umhverfi sínu betur. Sundkennsla barnanna hefur gengið afskaplega vel og ljóst að þau eru vel undirbúin fyrir næsta skref í skólagöngu sinni.

Dymbilvika og páskavika

Skráning barna yfir páskana er með meira móti og því lítið svigrúm til frídaga fyrir starfsfólk á þessu tímabili. Við munum því nýta tímann frekar í að vinna í öðrum tilfallandi verkefnum eins og hægt er.

SÍ-verkefnið

Verkefnið heldur áfram að þróast í rétta átt, þó við þurfum aðeins að spíta í lófana og koma handbókinni betur saman.

Starfsþróunarsamtöl

Framundan eru starfsþróunarsamtöl sem verða með tvískiptri nálgun í ár: Leikskólastjóri og deildarstjórar taka um klukkutíma samtöl, leikskólastjóri og annað starfsfólk fara í styttri snerpusamtöl, Deildarstjórar bjóða einnig sínu fólki í snerpusamtöl.  Markmiðið er að gefa rými fyrir opna umræðu og persónuleg endurgjöf í takt við þörf og hlutverk hvers og eins.

Árshátíðarundirbúningur

Við erum nú á kafi í undirbúningi árshátíðarinnar, sem er án efa stærsti viðburður leikskólans ár hvert. Þema árshátíðarinnar í ár eru þjóðsögur með mikilli áherslu á tröll og skessur og hefur verið virkilega gaman að sjá börnin taka þátt af lífi og sál í söngæfingar, leikæfingar og hönnun leikmynda. Það er ljóst að sýningin verður stórglæsileg.

bottom of page