Mánaðarskýrsla leikskólastjóra
Mánaðarskýrsla leikskólastjóra
5.3.25, 12:00
Lagt fyrir skólanefnd, 6 mars 2025
Febrúar 2025
Óveður og lokun leikskólans. Leikskólinn var lokaður 5. febrúar vegna óveðurs. Tilkynningar voru sendar til foreldra og starfsfólks og reynt var að lágmarka óþægindi sem slík lokun veldur.
Nýtt fundarkerfi. Við höfum tekið upp nýtt fundarkerfi sem eykur upplýsingaflæði innan leikskólans. Kerfið virkar þannig að um leið og fundir hafa verið haldnir, hvort sem um er að ræða deildarfundi, deildarstjórafundi eða aðra fundi, birtist fundargerðin í tölvupósti til allra deilda og leikskólastjóra. Þetta fyrirkomulag hefur gefist mjög vel og bætir samskipti og yfirsýn. Fundarkerfið er hluti af Meta Geta gæðakerfinu, sem Anna Greta á og hefur verið að þróa. Aðgangur leikskólans að fundarkerfinu er leikskólanum að kostnaðarlausu. Að auki höfum við sett upp læstan innri vef fyrir starfsfólk á leikholt.is, þar sem hægt er að nálgast allar helstu upplýsingar fyrir starfsfólk, þar á meðal fundargerðir.
SÍ verkefni, námskeið og fræðsla. SÍ þróunarverkefnið er komið á fullt og vel hefur tekist að virkja starfsfólk í verkefninu, búið er að kaupa sérstakan skáp sem mun innihalda allt málörfunarefni leikskólans þar sem efnið verður flokkað með sérstöku flokkunarkerfi sem er ætlað að auðvelda starfsfólki að finna rétt málörfunarefni. Verið er að flokka efni og vinna í handbókinni sem er lokaafurð verkefnisins. Matta og Helga fóru einnig á námskeiðið Markvissar aðgerðir í kjölfar TRAS, sem mun nýtast okkur vel í áframhaldandi vinnu með snemmtækan stuðning við málörvun.
Dagur leikskólans 6. febrúar. Í tilefni dagsins settum við upp myndlistasýningu í Skeiðalaug eins og við höfum gert síðstu ár, það stóð til að setja einnig upp sýningu í Árnesi en það komst ekki til framkvæmda en við stefnum á að hafa sýningu þar síðar. Á degi leikskólans skrifaði ég einnig stuttan pistil og vil deila nokkrum orðum þaðan hér:
,,Ég vil meina að ég hafi verið einstaklega lánsöm með leikskóla. Ekki bara vegna þess að við erum svo heppin að vera ekki í verkfalli þessa stundina, heldur vegna svo ótal margra annarra þátta sem gera skólann okkar góðan. Ég hafði lítið spáð í leikskólastiginu, enda nánast alla tíð starfað á grunnskólastiginu, þó ég hafi reyndar alltaf verið þeirrar skoðunar að grunnskólinn ætti frekar að horfa til leikskólans en öfugt. En það var ekki fyrr en núna, þegar ég er sjálf orðin hluti af leikskólastiginu, sem ég áttaði mig á þeirri óþrotlegri auðlegð sem þar býr.
Það er eitthvað sérstakt við leikskólastigið – og ég vil meina við okkar leikskóla. Hvað það nákvæmlega er erfitt að setja fingurinn á. Er það stærðin? Smæðin? Samfélagið sem við myndum saman, starfsfólk, foreldrar og börn? Ekki eru það börnin í sjálfum sér, því öll börn eru dýrð, hvert og eitt og börnin okkar eru engin undantekning frá því. En ég held að þetta sérstaka eigi rætur í því ósýnilega – stemningunni og menningunni sem við hér sköpum saman."
Sameiginlegur starfsdagur 19. febrúar. Allra leikskóla í Uppsveitum og Flóa var haldinn hér í Brautarholti. Um 100 manns mættu og hlýddu á fyrirlestra og erindi í tengslum við sameiginlega þróunarverkefni skólanna um snemmtækan stuðning við málörvun. Þórður sá um matinn og fekk mikið hrós fyrir, eins fengum við mikið hrós fyrir góðar móttökur og umgjörð.
Foreldrafundur um öryggismál 20. febrúar. Boðið var upp á foreldrafund þar sem Leikskólastjóri og starfsfólk leikskólans fóru yfir hvernig öryggismálum leikskólans er almennt háttað, hvaða áætlanir séu til staðar er varða öryggismál. Á fundinn mættu sex foreldrar og skapaðist góð umræða um öryggismál.
Sýningin Early Childhood Expo í London í lok febrúar. Starfsfólk leikskólans fór á sýninguna Early Childhood Expo í London. Á sýningunni voru allskyns kennslubúnaður, húsgögn, forrit og fleira tengt leikskólastiginu og yngri barna kennslu. Eins og tekið var fram í Facebook færslu leikskólastjóra á íbúasíðu Skeiða- og Gnúpverjahrepps: ,,Þessa stundina er starfsfólk leikskólans statt á sýningunni Early Childhood Expo í London. Við í Leikholti leggjum mikla áherslu á að vera faglegur og góður leikskóli og er virkilega áhugavert að sjá allt sem er í boði fyrir okkar besta fólk.”
Kjaramál. Við höfum eins og aðrir skólar á Íslandi verið í harðri kjarabaráttu og barist fyrir bættum kjörum, sem nú virðist vera í höfn. Það er gríðarlega mikilvægt fyrir starfsfólk að finna að störf þeirra séu metin að verðleikum og að sátt sé á milli aðila um launakjör.
Öskudagurinn 5. mars. Þegar þessi skýrsla er lögð fram er öskudagurinn nýliðinn. Þar sem hún er skrifuð daginn áður er lítið hægt að segja um hvernig dagurinn gekk, en við gerum ráð fyrir að hann hafi verið einstaklega skemmtilegur fyrir börnin!
Leikskóladagatal 2025-2026. Það liggur fyrir tillaga leikskólans að skóladagatali næsta skólaárs. Tillagan hefur verið borin undir foreldraráð. Ekki tókst að samræma starfsdaga leik- og grunnskóla fyrir áramót, þar sem þessir dagar tengjast öðrum viðburðum sem við höfum ekki stjórn á. Til dæmis verður kennaraþing leikskólakennara 26. september, en kennaraþing grunnskólans verður 10. október. Einnig er starfsdagur 7. nóvember sameiginlegur öllum leikskólum í Uppsveitum og Flóa. Ein ný tillaga hefur verið lögð fram í dagatalinu: Það er að leikskólinn loki kl. 14:00 síðasta daginn fyrir sumarfrí. Hingað til hefur verið opið til kl. 16:00, en það var talsvert krefjandi að fara beint í sumarfrí um leið og börnin gengu út úr húsi. Með því að stytta daginn um tvo tíma gefst svigrúm til að ganga frá áður en sumarfrí hefst. En að mati leikskólans er ekki þörf á að hafa heilan starfsdag þennan dag. Á skóladagatali eru: Valfrjálsir dagar merktir með appelsínugulu og starfsdagar merktir með grænu.
4. mars 2025
Anna Greta Ólafsdóttir
Leikskólastjóri